Nokkrar vikur eru síðan utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir Alþingiskosningarnar hófst hjá sýslumönnum um allt land. Fyrir hádegi höfðu um þrjátíu og átta þúsund manns greitt atkvæði utankjörfundar á landinu öllu.
„Það hefur verið góð þátttaka í utankjörfundaratkvæðagreiðslu á höfuðborgarsvæðinu. Við skráðum í gær hérna á höfuðborgarsvæðinu 3.770 atkvæði og það hafa greitt hjá okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu 22.300 manns, sem sagt skráð atkvæði,“ segir Einar Jónsson er staðgengill Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Hægt er að greiða atkvæði utankjörfundar í Holtagörðum en þar verður opið til tíu í kvöld. Einar segir atkvæðagreiðslu utankjörfundar hafa farið rólega af stað.
„Það jókst verulega núna í byrjun vikunnar. Sérstaklega frá og með þriðjudagsmorgni þá var mikil aukning.“
Gul veðurviðvörun tekur gildi síðdegis fyrir Suðausturland og klukkan átta í kvöld á Austfjörðum. Þar er spáð norðaustan hríðarveðri. Afmarkaðar samgöngutruflanir og lokanir á vegum gætu fylgt. Veðrið á að standa yfir nóttina á Suðausturlandi en á Austfjörðum á því hins vegar ekki að slota fyrr en annað kvöld, á sjálfan kjördag. Kjósendur í Múlaþingi hafa því verið hvattir til að kjósa snemma.
Svavar Pálsson settur sýslumaður á Austurlandi segir marga hafa brugðist við hvattningunni.
„Það hefur bara verið nokkuð mikil kjörsókn ekki síst á Austurlandi. Það má segja kjörsóknin hafi verið í takti við umræðuna og upplýsingar sem fólk hefur haft um veðurhorfur. Gærdagurinn var mjög stór og dagurinn í dag hann er líka stór að því leiti að kjörsóknin á Austurlandi í morgun er meiri heldur en annars staðar en á landinu sýnist mér og fólk er greinilega að bregðast við. Miðað við tölurnar sem ég er að horfa á hérna þá virðist vera um það bil helmingi meiri kjörsókn í umdæmi embættisins á Austurlandi heldur en í öðrum umdæmum á landsbyggðinni.“