Þetta segir María Ólafsdóttir, móðir barns sem hefur verið frá leikskóla vegna verkfallsaðgerða leikskóla í fjórar vikur.
Kennarar eru á fimmtu viku í verkfalli í kjarabaráttu sinni en eins og sakir standa hefur Kennarasamband Íslands samþykkt aðgerðir í 27 leik- grunn- og menntaskólum um land allt. Sum verkföllin eru tímabundin og önnur ekki. Fjölmiðlabann var lagt á í deilunni á laugardaginn.
Samninganefnd kennara og ríkis- og sveitarfélaga funduðu klukkan eitt ásamt ríkissáttasemjara í Karphúsinu í dag. Svo virðist sem að hægur gangur sé í kjaraviðræðum kennara þó að Ástráður Haraldsson hafi lýst því yfir á sunnudaginn að nýr taktur væri í deilunni.
Ólafur Hauksson, afi barns á Leikskólanum á Seltjarnarnesi, tekur undir orð Maríu og segir ástandið vera skelfilegt.
„Það er ofboðslegt frumhlaup af kennaraforystunni að hafa farið út í þessi verkföll, vitandi það að það var ekki einu sinni umræðugrundvöllur fyrir þessum samningaviðræðum. Núna fyrst eftir fjórar vikur er kominn grundvöllur en það gengur ekkert, gengur hægt og á meðan er þetta bara gífurlegt álag á foreldra, börnin og afa og ömmur, systkini og aðstandendur.“
Hann hvetur Kennarasamband Íslands til að falla frá verkfallinu. María samsynnist því og gagnrýnir aðferðarfræðina og segir verkfallsaðgerðirnar ekki ganga upp.
„Hvers vegna að taka ekki eitt skref til baka og bakka aðeins. Hvers vegna má ekki bakka og endurskoða?“