Þetta fullyrðir The Guardian og nefnir sérstaklega að Edin Terzic, fyrrverandi stjóri Dortmund, sé á blaði hjá West Ham.
Lopetegui, sem þjálfaði Porto, spænska landsliðið, Real Madrid, Sevilla og Wolves, tók við West Ham í sumar af David Moyes.
Gengið í ensku úrvalsdeildinni hefur verið undir væntingum og eftir eitt stig úr leikjum við Nottingham Forest og Everton í síðustu leikjum fyrir landsleikjahlé, er West Ham í 14. sæti deildarinnar með tólf stig úr ellefu leikjum.
Leikirnir tveir sem Lopetegui er sagður hafa til að bjarga starfinu eru í erfiðari kantinum. West Ham sækir Newcastle heim næsta mánudagskvöld og tekur svo á móti Arsenal í Lundúnaslag fimm dögum síðar.
Terzic, Hjulmand, Schmidt og Hoeness nefndir
Eftir það taka við „þægilegri“ leikir, við Leicester, Wolves og Bournemouth, og þá mögulega undir stjórn nýs manns.
The Guardian segir að West Ham sé með Terzic til skoðunar en hafi einnig skoðað Kasper Hjulmand, fyrrverandi landsliðsþjálfara Danmerkur, Roger Schmidt sem stýrði Benfica, og Sebastian Hoeness sem stýrir Stuttgart. Til greina kemur að ráða mann til skamms eða lengri tíma.
The Guardian getur þess að Graham Potter, fyrrverandi stjóri Chelsea, sé á lausu en segir að West Ham hafi aldrei virst áhugasamt um að fá hann.