Á Innherja á Vísi er umfjöllun um næstu ákvörðun Peningastefnunefndar. Fréttamaður leitaði til greinenda á fjármálamarkaði, sjóðstjóra, hagfræðinga og stjórnenda lífeyrissjóða. Enginn vafi virtist leika á því að vaxtalækkunarferlið muni halda áfram – eina spurningin sé hversu stórt skref verði stigið.
Lilja Sólveig Kro, hagfræðingur hjá Arion greiningu, er þar ekki undanskilin.
„Það má segja að vaxtalækkunarferlið hafi hafist í október og greiningaraðilar eru sammála um að vextir verði lækkaðir á morgun, spurningin er hversu mikið þeir verða lækkaðir. Það eru fimm einstaklingar í þessari nefnd og þeir hafa sínar skoðanir og eru kannski ekkert endilega að horfa á sömu hlutina. Það er ekki gefið hvað þeir gera en við teljum líklegast að þeir lækki vexti um 50 á morgun,“ segir Lilja Sólveig.
Það sem styðji slíka ákvörðun helst séu að háu vextirnir sem þjóðin hefur búið við séu farnir að hafa áhrif á hagkerfið.
„Það er að hægja á og verðbólga er að minnka. Hún mælist núna 5,1% og við væntum þess að hún lækki niður í 4,5% í nóvember þannig að verðbólguhorfur eru að batna sem gefur Seðlabankanum tækifæri til að lækka nafnvexti en halda sama aðhaldi í gegnum raunvexti.“
Nokkrir óvissuþættir geti þó orðið þess valdandi að einhverjir nefndarmanna vilji taka varfærari skref.
„Við gerum ráð fyrir því að vextir verði lækkaðir um 50 punkta en það gæti farið svo að nefndin ákveði að taka minni skref þar sem það eru blikur á lofti á vinnumarkaði og óvissa varðandi kosningar og nú sjáum við líka að þrátt fyrir að hagkerfið sé byrjað að hægja á sér þá eru að berast vísbendingar sem sýna að það er ennþá töluverður kraftur í hagkerfinu, til dæmis tölur um kortaveltu sem voru að berast fyrir helgi sem sýna sex prósent vöxt í kortaveltu Íslendinga svo það er alveg ástæða til að sýna meiri varkárni og taka minni skref en svo gæti líka nefndin metið það svo að verðbólguhorfur séu búnar að batna það mikið og verðbólga muni koma hraðar niður en þeir gerðu áður ráð fyrir.“