Enski boltinn

Van Nistelrooy sækir um stjórastarfið hjá Coventry

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruud van Nistelrooy stýrði Manchester United til sigurs í þremur af fjórum leikjum sínum við stjórnvölinn hjá liðinu.
Ruud van Nistelrooy stýrði Manchester United til sigurs í þremur af fjórum leikjum sínum við stjórnvölinn hjá liðinu. getty/Robbie Jay Barratt

Ruud van Nistelrooy, sem lét af störfum hjá Manchester United í byrjun vikunnar, hefur sótt um knattspyrnustjórastarfið hjá Coventry City.

Van Nistelrooy var aðstoðarmaður Eriks ten Hag hjá United og stýrði liðinu svo í fjórum leikjum eftir að hann var látinn fara. United vann þrjá af þessum fjórum leikjum og gerði eitt jafntefli.

Rúben Amorim ákvað hins vegar að halda Van Nistelrooy ekki hjá United og Hollendingurinn yfirgaf því félagið eftir aðeins nokkra mánuði hjá því.

Van Nistelrooy hefur þó áhuga á að vera áfram á Englandi og samkvæmt talkSPORT hefur hann sótt um stjórastarfið hjá B-deildarliði Coventry.

Mark Robins var sagt upp sem stjóra Coventry fyrr í mánuðinum eftir sjö ára starf. Liðið er í 17. sæti ensku B-deildarinnar með sextán stig eftir fimmtán leiki. Mikill áhugi er á starfinu hjá Coventry því Frank Lampard ku einnig hafa sótt um það.

Fyrir utan leikina fjóra við stjórnvölinn hjá United hefur Van Nistelrooy aðeins verið aðalþjálfari í eitt tímabil. Hann stýrði PSV Eindhoven tímabilið 2022-23 og gerði liðið að bikarmeisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×