Enski boltinn

Scott McTominay sér ekki eftir neinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott McTominay fagnar marki með Napoli á dögunum. Hann hefur byrjað vel í borg Maradona.
Scott McTominay fagnar marki með Napoli á dögunum. Hann hefur byrjað vel í borg Maradona. Getty/Giuseppe Bellini

Scott McTominay yfirgaf uppeldisfélagið sitt Manchester United í sumar. Á meðan allt hefur verið í tómu tjóni hjá United þá hefur Skotinn blómstrað á nýjum stað suður á Ítalíu.

United seldi þennan 27 ára miðjumann til Napoli. Hann hefur skorað þrjú mörk í tíu leikjum og Napoli situr í toppsæti ítölsku deildarinnar.

McTominay ræddi þá ákvörðun að yfirgefa United, félagið sem hann hafði spilað fyrir síðan hann var sex ára gamall.

„Augljóslega var þetta stór ákvörðun, það er engin leið til að líta fram hjá því. Þetta var risastór ákvörðun fyrr mig, fjölskyldu mína og vini mína,“ sagði Scott McTominay í viðtali við The Times.

„Það kemur að tímapunkti á þínum ferli þar sem að þú þarft að spyrja sjálfan þig: Viltu gera þetta? Algjörlega var svarð og þá er bara að láta vaða. Það er engin ástæða til að líta til baka. Ég hef aldrei séð eftir neinu í mínu lífi eða á mínum ferli. Það hefur ekkert breyst,“ sagði McTominay.

„Ég vil ná árangri á mínum ferli og vil finna krefjandi áskoranir sem hjálpa mér að verða bæði besti fótboltamaðurinn sem ég get verið og besta manneskja sem ég orðið,“ sagði McTominay.

„Ég er með frábært fólk í kringum mig sem hafa hjálpað mér og það er því mjög lítið stress í mínu lífi því ég á mjög góða fjölskyldu, stórkostlega vini og yndislega kærustu sem gera svo mikið fyrir mig,“ sagði McTominay.

„Ég er mjög þakklátur fyrir þau öll. Það er ekki auðvelt að flytja til annars lands og ná að koma sér fyrir þar. Það hefur samt gengið mjög þægilega fyrir sig vegna þess hvernig ítalska fólkið hefur hjálpað mér. Það skiptir ekki máli hvað mig vantar, þau eru alltaf til taks. Ég er þeim líka mjög þakklátur,“ sagði McTominay.

Napoli hefur unnið átta af tólf leikjum sínum í ítölsku deildinni og er með eins stigs forskot á toppi Seríu A. Manchester United er í þrettánda sæti í ensku úrvalsdeildinni með fjóra sigra í ellefu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×