Leikurinn fór fram fyrir framan metfjölda áhorfenda, en aldrei hafa færri mætt á fótboltaleik á Stade de France í París. Aðeins 20 þúsund áhorfendur mættu á 80 þúsund manna leikvanginn. Einhverjir þeirra bauluðu á ísraelska þjóðsönginn fyrir leik.
Yo @UEFAcom it’s time to ban Israel from international football. Israeli fans are causing trouble in France right now
— Esheru (@EsheruKwaku) November 14, 2024
pic.twitter.com/aPNpIttV17
Öryggisgæsla var aukin til muna í vikunni eftir slagsmál sem brutust út í Amsterdam í síðustu viku milli mótmælenda sem styðja Palestínu og gesta frá Ísrael sem fylgdu liði Maccabi Tel Aviv sem átti leik í Evrópudeildinni.
Hræðsla var um álíka ofbeldi í París í gær og það kom til handalögmála þegar skammt var liðið á leikinn. Talið er að um 50 manns hafi átt þátt í þeim slagsmálum.
Því var snögglega brugðist við og urðu af því engir eftirmálar. Talið er að um fjögur þúsund lögreglumenn hafi verið á leik gærkvöldsins.

Ísraelar voru varaðir við af stjórnvöldum að ferðast ekki á leikinn en um 100 stuðningsmenn fóru gegn því og voru meðal áhorfenda á tómlegum vellinum. Þeir veifuðu gulum blöðrum og kölluðu „frelsið gíslana“ og vitna þar til Ísraela sem eru í haldi Hamas á Gaza.
Nokkrir hundruðir mótmælenda komu saman fyrir utan völlinn fyrir leik og veifuðu palestínskum, líbönskum og alsírskum fánum til að mótmæla stríðinu á Gaza. „Við spilum ekki með þjóðarmorð,“ sagði á einum borða mótmælenda.

Fjöldi stjórnmálamanna í Evrópu hefur lýst yfir „endurkomu gyðingahaturs“ í kjölfar þess að ísraelskir stuðningsmenn urðu fyrir aðkasti í Amsterdam fyrir rúmri viku síðan. Samkvæmt skýrslu borgaryfirvalda í Amsterdam voru stuðningsmenn Maccabi sjálfir sekir um skemmdarverk, árás á leigubíl auk þess að rífa niður palestínska fána og kalla hatursorð gegn aröbum.
Tíðindaminna var innan vallar þar sem leiknum lauk með steindauðu markalausu jafntefli. Ísrael fékk þannig fyrsta stig liðsins í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Ítalir eru efstir með 13 stig, Frakkar næstir með tíu, Belgar fjögur og Ísraelar eitt.


