Enskir fjölmiðlar greina frá því að Coote hafi verið á fullu við að skipuleggja partíið fyrir leikinn og meira að segja í hálfleik.
Ensku dómarasamtökin, PGMOL, settu Coote í ótímabundið bann eftir að myndband þar sem hann fór ófögrum orðum um Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóra Liverpool, fór í dreifingu.
Í kjölfarið birti The Sun myndband þar sem Coote virðist sjúga hvítt duft upp í nefið með peningaseðli. Myndbandið var frá því í sumar, þegar Coote var dómari á Evrópumótinu í Þýskalandi. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur nú sett Coote til hliðar.
Coote ku hafa bókað hótelherbergi fyrir partíið rúmum hálftíma áður en leikur Spurs og City hófst. Hann sendi svo staðfestingu á bókuninni rétt fyrir upphafsflautið. Heimildarmaður The Sun sagðist svo einnig hafa fengið skilaboð frá Coote í hálfleik. Hann mætti þó ekki í partíið, Coote til mikillar gremju. Dómarinn fór meðal annars fram á að hann endurgreiddi honum bókunarkostnaðinn.
Tottenham vann leikinn þar sem Coote var fjórði dómari, 2-1. Hann fór fram 30. október.