Handbolti

Þór­ey Anna minnti á sig í 35. sigri Valskvenna í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í Valsliðinu í kvöld.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í Valsliðinu í kvöld. Vísir/Anton Brink

Valskonur héldu sigurgöngu sinni áfram í kvennahandboltanum í kvöld með átta marka sigri á Eyjakonum á Hlíðarenda en leikurinn var í níundu umferð Olís deild kvenna í handbolta.

Valur vann leikinn 29-21 eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 16-8.

Valsiðið hefur unnið alla átta deildarleiki sína á tímabilinu og alls 35 leiki í röð í öllum keppnum. Liðið vann Evrópuleik sinn um síðustu helgi og hefur unnið alla leiki sína frá því í október í fyrra.

Eyjaliðið hefur á móti tapað fjórum leikjum í röð og fara inn í EM-fríið á súrum nótum. Næsti leikur liðanna í Olís deildinni er ekki fyrr en í janúar.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var ekki valin í landsliðshópinn fyrir Evrópumótið en minnti á sig með átta mörkum úr aðeins níu skotum. Tvö af þessum mörkum komu af vítalínunni.

Sigríður Hauksdóttir skoraði fimm mörk og Arna Karitas Eiríksdóttir skoraði fjögur mörk fyrir Val. Hafdís Renötudóttir varði 12 skot i markinu samkvæmt tölfræði HB Statz. Birna Berg Haraldsdóttir var markahæst hjá ÍBV með sjö mörk en Sunna Jónsdóttir skoraði 5 mörk.

Birna Berg fékk ekki mikla hjálp sem sést vel á því að hún skapaði tíu færi fyrir félaga sina en liðsfélagarnir nýttu aðeins þrjú þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×