Fótbolti

Tvö mörk á tveimur mínútum tryggðu sigur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Inaki Williams skoraði jöfnunarmark Athletic Club og sá svo sigurmarkið syngja í netinu aðeins mínútu síðar.
Inaki Williams skoraði jöfnunarmark Athletic Club og sá svo sigurmarkið syngja í netinu aðeins mínútu síðar. Ion Alcoba Beitia/Getty Images

Þrjú lið eru jöfn að stigum í efsta sæti Evrópudeildarinnar. 

Galatasaray tók toppsætið af Tottenham með 3-2 sigri í verulega viðburðaríkum leik.

Þrjú lið við toppinn sem gæti tekið breytingum

Frankfurt og Athletic Club eru jöfn Galatasaray með tíu stig eftir þrjá leiki.

Frankfurt vann 1-0 á heimavelli gegn Slavia Prag þökk sé marki Omars Marmoush á 53. mínútu.

Athletic vann 2-1 á útivelli gegn Ludogorets. Gestirnir lentu snemma undir en skoruðu tvö mörk á tveimur mínútum í seinni hálfleik til að tryggja sigurinn. Inaki Williams skoraði fyrra markið á 73. mínútu, Nico Serrano skoraði svo sigurmarkið á 74. mínútu. 

Stöðutaflan gæti auðvitað tekið töluverðum breytingum þegar allir leikir þriðju umferðar hafa verið spilaðir. Lazio (mætir Porto), Anderlecht (mætir RFS) og Ajax (mætir Maccabi Tel-Aviv) eiga öll möguleika á því að tylla sér á toppinn með sigri í kvöld.

Íslendingar í eldlínunni

Elías Rafn Ólafsson átti slæman dag í marki danska félagsins Midtjylland, sem tapaði 2-0 fyrir rúmenska félaginu FCSB.

Andri Fannar Baldursson spilaði allan leikinn á miðjunni hjá sænska félaginu Elfsborg, sem gerði 1-1 jafntefli við portúgalska félagið Braga. Andri fékk gult spjald snemma. Braga tók forystuna á 66. mínútu en Emil Holten skoraði jöfnunarmarkið fyrir heimamenn á 84. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×