Á vef Veðurstofunnar segir að þegar lægðin fari skammt undan Vestfjörðum, gangi í suðvestanstorm eða -rok á norðanverðu landinu, jafn vel staðbundið ofsaveður norðvestantil, með skúrum eða éljum.
Reikna megi með hríðarveðri á Vestfjörðum og Ströndum um tíma eftir hádegi og því ekkert ferðaveður á þeim slóðum.
„Gular veðurviðvaranir eru í gildi um mest allt land, sem breytast í appelsínugult fyrir norðan uppúr hádegi. Talsvert hægara og dálitlar skúrir syðra, en lægir um land allt og rofar til seint í kvöld og nótt.
Víða varasamt ferðaveður í dag og er fólk því hvatt til að sýna aðgát, tryggja lausamuni og helst fresta ferðalögum norðanlands síðdegis, ef hægt er.
Suðaustankaldi, víða skúrir og milt veður á morgun, en yfirleitt bjartviðri og nálægt frostmarki á Norður- og Ausutrlandi.
Útlit helgarinnar sveiflukennt, væta með köflum og milt á laugardag, en órólegt veður og kólnandi á sunnudag, jafnvel slydda eða snjókoma til fjalla.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Suðlæg átt, 5-13 m/s og Sstöku skúrir eða slydduél, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hvessir um kvöldið og fer að rigna suðaustantil. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast syðst.
Á laugardag: Suðaustan 5-10 m/s og rigning með köflum, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti víða 5 til 10 stig.
Á sunnudag: Snýst í allhvassa vestanátt með rigningu eða slyddu og snjókomu til fjalla, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 1 til 6 stig.
Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir stífa sunnanátt með rigningu og hlýindum.
Á miðvikudag: Snýst líklega í svuðestanátt með skúrum eða slydduéljum og kólnandi veðri.