Kennarar ætla að hittast á baráttufundi síðdegis í Háskólabíói en rúm vika er síðan að verkfallsaðgerðir þeirra hófust. Húsið verður opnað klukkan 16 og hefst dagskrá klukkan 16:30.
Magnús Þór Jónsson formann Kennarasambands Íslands segir engan formlegan fund hafa verið boðaðan í kjaradeilunni.
„Hóparnir eru að vinna í sínum baklöndum og það má reikna með að það verði einhverjir fundir í kringum helgina.“
Salvör Nordal umboðsmaður barna sagði í gær verkfallið mismuna börnum hvað varðar rétt þeirra til menntunar. Verkfallsrétturinn sé óumdeildur en á sama tíma sé skólaskylda og börn eigi stjórnarskrárvarinn rétt til menntunar og fræðslu. Þá sagði hún embættinu hafa borist fjöldi erinda vegna verkfalls kennara. Þá hafa foreldrar líka gagnrýnt verkfallsaðgerðirnar.
„Ég hef orðið var við það að fyrsta sem að bæði foreldrar og umboðsmaður barna hafa sagt er að verkfallsrétturinn er réttur stéttarfélags til þess að beita sem bardagaaðgerð í kjarabaráttu. Því miður þá eftir sex mánaða aðgerðarþögn frá viðsemjendum þá áttum við ekkert annað eftir en að beita þessari aðgerð. Þar sem við erum með alla skóla landsins undir og tólf þúsund kennara þá völdum við þessa leið að fara minna afgerandi leið. Frekar en að fara í allsherjarverkfall að fara frekar í minni verkföll,“ segir Magnús.