Þetta segir Sky Sports í dag sem segir Liverpool vera með þá Bryan Mbeumo úr Brentford og Antoine Semenyo í sigtinu.
Sky segir að verið sé að skoða framtíðarkosti fyrir hollenska stjórann Arne Slot í ljósi þeirrar stöðu að samningur Mohamed Salah við Liverpool renni út næsta sumar.
Semenyo hefur skorað fimm mörk samtals í öllum keppnum fyrir Bournemouth á tímabilinu og Mbeumo er þegar kominn með átta mörk.
Salah er einn af þremur stjörnuleikmönnum Liverpool sem óvissa ríkir um þar sem að samningar renna út næsta sumar. Hinir eru Virgil van Dijk og Trent Alexander-Arnold. Félagið reynir að halda þeim en undirbýr sig einnig fyrir aðrar útkomur. Slot kvaðst á blaðamannafundi í gær ekkert ræða við leikmennina um samningamál – það sé í höndum annarra.

Semenyo, sem er 24 ára gamall, skoraði fimm mörk í 14 deildarleikjum á síðustu leiktíð og er kominn með þrjú mörk í níu deildarleikjum í haust. Mbeumo er 25 ára og hefur skorað átta mörk í níu deildarleikjum. Sky segir Liverpool hafa fylgst með honum um nokkra hríð.
Leikmennirnir tveir eru sagðir búa yfir ákveðnum eiginleikum sem svipi til Salah, sérstaklega hvað það varði að geta verið ógnandi í öllum stöðum framarlega á vellinum.
Sky í Þýskalandi segir svo að hinn 25 ára Egypti Oumar Marmoush, sem er leikmaður Stuttgart, sé einnig í sigti Liverpool en heimildamenn Sky í Liverpool segja engan áhuga á honum að svo stöddu.