Í samtali við fréttastofu segir Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Landskjörstjórnar, að einhverjir flokkar hafi þegar skilað af sér listum í öllum kjördæmum.
Þó er ljóst að miðað við fjölda lista, kjördæma og flokka sem boðað hafa framboð, að einhverjir eiga enn eftir að klára sín mál. Kjördæmin eru sex, og tólf flokkar hafa boðað þingframboð. Tólf sinnum sex eru sjötíu og tveir, og því ansi margir listar sem ekki hafa skilað sér til Landskjörstjórnar enn.
Hafa knappan tíma eftir að frestur rennur út
Hægt er að skila meðmælum og framboðslistum bæði með rafrænum hætti eða á skriflegu formi. Ástríður segir ljóst að ekki séu allir að nýta sér fyrri kostinn. Landskjörstjórn tekur á móti skriflegum gögnum í Hörpu á morgun, frá klukkan tíu til tólf.
„Það kemur auðvitað ekkert í ljós fyrr en þá hverjir eru að skila framboðum,“ segir hún.
Þegar fresturinn er liðinn hefur kjörstjórnin samkvæmt lögum þrjá sólarhringa og fjórar klukkustundir til að fara yfir gögnin sem henni hafa borist og sannreyna þau. Því mun í síðasta lagi liggja endanlega fyrir á sunnudag klukkan fjögur, hvaða flokkar bjóða fram og í hvaða kjördæmum.