Birkir og Arnór léku báðir með Hammarby á sínum tíma, við afar góðan orðstír, og félagið hefur síður en svo gleymt þeim.
Nú þegar fram undan er kveðjuleikur þeirra beggja, þegar Valur og ÍA mætast í lokaumferð Bestu deildarinnar á morgun, sendir Hammarby þeim kveðju og segir: „Gangi ykkur allt í haginn með það sem nú tekur við, Arnór og Birkir, og takk kærlega fyrir allt sem þið hafið gert fyrir Hammarby!“
På lördagen gör @arnorsmaRa sin sista match i karriären och @BirkirSaevars spelar sin sista match på Island – och de möter varandra! All lycka i det ni tar er för framöver, Arnór och Birkir, och stort tack för allt ni gjort för Hammarby!#Bajen pic.twitter.com/e1jtGOvOK9
— Hammarby Fotboll (@hammarbyfotboll) October 25, 2024
Eins og fram kom í viðtali við Birki á Vísi í dag þá mun hann eftir kveðjuleikinn fyrir Val á morgun flytja aftur í gamla húsið sitt í Stokkhólmi, frá því þegar hann lék með Hammarby, en fjölskylda hans flutti þangað í desember í fyrra. Og Birkir er í atvinnuleit svo það er aldrei að vita nema að hans gamla félag hafi upp á eitthvað að bjóða.
Birkir, sem verður fertugur í næsta mánuði, lauk tíu ára atvinnumannsferli sínum með því að spila í þrjú ár fyrir Hammarby, út tímabilið 2017, áður en hann sneri aftur heim á Hlíðarenda skömmu fyrir HM í Rússlandi 2018.
Þeir Birkir og Arnór voru liðsfélagar hjá Hammarby í tvö ár því Arnór lék með liðinu á árunum 2016-2018.
Arnór, sem er 36 ára, átti svo eftir að leika með Lilleström í Noregi áður en hann kom til Íslands fyrir sumarið 2021 og varð aftur liðsfélagi Birkis hjá Val. Arnór færði sig svo heim á Skagann og lýkur ferlinum sem leikmaður ÍA.