Fótbolti

Stálu skart­gripum að verð­mæti 75 milljóna af Juventus parinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Douglas Luiz og Alisha Lehmann fluttu sig um set frá Birmingham til Tórínó í sumar.
Douglas Luiz og Alisha Lehmann fluttu sig um set frá Birmingham til Tórínó í sumar. instagram-síða alishu lehmann

Þjófar létu greipar sópa á heimili Douglas Luiz og Alishu Lehmann, leikmanna Juventus, á laugardaginn. Þeir stálu skartgripum að verðmæti tæplega 75 milljóna króna.

Þegar Luiz kom heim til sín eftir 1-0 sigur Juventus á Lazio í ítölsku úrvalsdeildinni á laugardaginn sá hann að íbúðin var í rúst.

Samkvæmt Gazzetta dello Sport höfðu innbrotsþjófarnir stolið ellefu úrum sem Luiz átti og demantshálsmenum sem Lehmann átti. Talið er að verðmæti alls þess sem var stolið sé um 75 milljónir íslenskra króna.

Lehmann var á hóteli á laugardaginn en í gær mættu hún og stöllur hennar Inter á útivelli. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli. Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð í marki Inter.

Luiz og Lehmann gengu bæði í raðir Juventus frá Aston Villa í sumar. Þótt þau spili fyrir sama liðið fær Luiz margfalt hærri laun en Lehmann. Sú svissneska vakti athygli á því í síðasta mánuði.

„Ég er ekki stjarna, ég er bara venjuleg manneskja. Ég fer heim og elda, og geri allt það sem að aðrir gera. Eftir æfingar segi ég oft við Douglas hvað þetta sé ósanngjarnt. Við vinnum sömu vinnu en hann fær hundraðþúsund sinnum meira borgað en ég,“ sagði Lehmann.

Luiz og Lehmann eru ekki fyrstu leikmenn Juventus sem hafa verið rændir á undanförnum árum. Ángel Di María, Moise Kean og Kaio Jorge lentu í því sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×