Erlent

Halda á­fram á­rásum á Beirút en með gult spjald frá Banda­ríkjunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um það bil 1.350 eru sagðir hafa verið drepnir í árásum og aðgerðum Ísraelsmanna í Líbanon.
Um það bil 1.350 eru sagðir hafa verið drepnir í árásum og aðgerðum Ísraelsmanna í Líbanon. AP/Hussein Malla

Ísraelsher gerði loftárásir á skotmörk í Beirút, höfuðborg Líbanon, í morgun í fyrsta sinn í fimm daga. Samkvæmt hernum var ráðist gegn vopnageymslum Hezbollah í suðurhluta Beirút og var íbúum á svæðinu ráðlagt að forða sér áður en þær hófust.

Nokkrum klukkustundum áður en Ísraelsmenn létu til skarar skríða gáfu Bandaríkjamenn það út að þeir hefðu viðrað þá afstöðu sína við ríkisstjórn Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, að árásir hersins á borgina væru of umfangsmiklar.

Þá greindi Najib Mikati, sitjandi forsætisráðherra Líbanon, frá því í gær að í samtölum sínum við ráðamenn vestanhafs hefði hann fengið „nokkurs konar loforð“ um að Ísraelar myndu draga úr árásum sínum á Beirút og úthverfin í suðurhluta borgarinnar.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir Ísrael hafa gefið út viðvaranir um yfirvofandi aðgerðir sem nái til fjórðungs Líbanons.

Auk þess að vilja sjá Ísraelsmenn halda aftur af sér varðandi Líbanon þá hafa Bandaríkjamenn einnig varað stjórnvöld við því að þeir muni setja vopnasendingar á bið ef ekki verður tryggt að mannúðaraðstoð fái að flæða inn á Gasa.

Netanyahu er sagður leggja drög að hefndaraðgerðum gegn Íran en Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Íran, hefur varað António Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, við því Íranir séu reiðubúnir til að grípa svara fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×