Enski boltinn

Stjóri Arsenal sagði upp eftir slaka byrjun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonas Eidevall er hættur hjá Arsenal.
Jonas Eidevall er hættur hjá Arsenal. getty/Jacques Feeney

Jonas Eidevall er hættur sem knattspyrnustjóri Arsenal eftir erfiða byrjun á tímabilinu. Hann hafði stýrt liðinu í þrjú ár.

Arsenal steinlá fyrir Glódísi Perlu Viggósdóttur og stöllum hennar í Bayern München, 5-2, í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku og tapaði svo fyrir Chelsea, 1-2, í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Arsenal er í 6. sæti deildarinnar með fimm stig eftir fjóra leiki.

Eftir þessa slöku byrjun á tímabilinu sá Eidevall sæng sína upp reidda og sagði upp hjá Arsenal. Félagið greindi frá þessu í dag.

Arsenal mætir Vålerenga, liði Sædísar Rúnar Heiðarsdóttur, í Meistaradeildinni annað kvöld. Aðstoðarþjálfarinn Renée Slegers stýrir Arsenal allavega í þeim leik og gegn Dagnýju Brynjarsdóttur og stöllum hennar í West Ham United á sunnudaginn.

Eidevall var ráðinn stjóri Arsenal sumarið 2021. Undir hans stjórn endaði liðið einu sinni í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tvisvar í því þriðja og vann deildabikarinn í tvígang. Áður en sá sænski tók við Arsenal stýrði hann Rosengård í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×