Innlent

Varar við „hægriglundroða” Bjarna og Sig­mundar og lands­fundi frestað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar átti fund með forseta Íslands í gær líkt og aðrir formenn stjórnmálaflokkanna.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar átti fund með forseta Íslands í gær líkt og aðrir formenn stjórnmálaflokkanna. Vísir/Vilhelm

Formaður Samfylkingarinnar varar við mögulegum „hægriglundroða með flokksbrotum Bjarna og Sigmundar og fylgitunglum þeirra,“ að afstöðnum alþingiskosningum sem framundan eru. Þá hefur framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar ákveðið að fresta landsfundi flokksins sem átti að fara fram um miðjan nóvember. Er það mat framkvæmdastjórnarinnar að það sé best fyrir flokkinn og að öllum kröftum flokksins verði beint í kosningabaráttu. Þess í stað verði stefnt að landsfundi í mars eða apríl.

Þetta kemur fram í bréfi Kristrúnar Frostadóttur formanns flokksins sem birt er á heimasíðu flokksins. Í bréfinu segir Kristrún mikil tækifæri felast í því fyrir þjóðina að nú sé komið á kosningum um leið og hún kallar eftir stuðningi jafnaðarfólks við kosningabaráttu flokksins í gegnum framlög í kosningasjóð.

„Á næstu vikum munum við svo blása til kosningabaráttu af fullum krafti. Og þá verður verkefni okkar að virkja fjölda fólks með fjölbreyttum hætti til að tryggja sigur Samfylkingar. Nú er tækifærið. Ég yrði virkilega þakklát fyrir þinn stuðning,” skrifar Kristrún meðal annars.

„Við getum ekki tekið neinu sem gefnu um niðurstöður kosninga. Það er til staðar raunveruleg hætta á því að við vöknum þann 1. desember næstkomandi og núverandi ríkisstjórn haldi meirihluta sínum – eða geti bætt við sig fjórða flokknum. Það er líka til staðar raunveruleg hætta á harðri hægristjórn. Okkur jafnaðarfólki ber siðferðileg skylda til að bjóða þjóðinni betri valkost en hægriglundroða með flokksbrotum Bjarna og Sigmundar og fylgitunglum þeirra,“ skrifar Kristrún ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×