Enski boltinn

Salah farinn heim til Liver­pool: Of­beldis­fullir and­stæðingar og hættu­legur völlur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Salah fær góða hvíld fyrir komandi leikjatörn hjá Liverpool.
Salah fær góða hvíld fyrir komandi leikjatörn hjá Liverpool. Vísir/Getty

Mohamed Salah hefur yfirgefið landsliðshóp Egyptalands og er farinn aftur heim til Liverpool. Egypski stjörnuleikmaðurinn var ekki spenntur fyrir seinni leik Egypta gegn Máritaníu. 

Mo Salah lék allan leik Egyptalands og Máritaníu í gær og skoraði síðara mark egypska liðsins í 2-0 sigri. Leikurinn fór fram á heimavelli Egypta en liðin mætast á nýjan leik á heimavelli Máritaníu á þriðjudaginn.

Þar verður Salah hins vegar ekki með. Hann er floginn aftur til Liverpool en ákvörðunin var tekin í samráði við forráðamenn egypska knattspyrnusambandsins.

Í yfirlýsingu egypska knattspyrnusambandsins sagði að Salah hefði átt fund með teymi landsliðsins og þjálfaranum Hossam Hassan.

„Þar var ákveðið að gefa leikmanninum hvíld í næsta leik.“

Brotthvarf Salah úr landsliðshópnum kemur í kjölfarið á áhyggjum Egypta af grófum leikstíl Marítaníumanna og heimavelli liðsins. Eftir fyrri leik þjóðanna í gær sagði þjálfarinn að mögulega yrði Salah ekki með í seinni leiknum auk þess sem hann sagði mótherjana vera „ofbeldisfulla“.

Leikurinn mun fara fram á Cheikha Ould Boidiya leikvanginum í Nouakchott en á honum er gervigras.

„Ef einhver af mínum leikmönnum biður um að þurfa ekki að spila á gervigrasi, þá mun ég samþykkja það,“ sagði Hassan og ljóst að Egyptar eru ekki hrifnir af gervigrasvöllum.

„Máritaníumenn spila grófan leik og með ofbeldisfullum tæklingum og völlurinn þeirra er ekki góður.“

Eftir sigurinn í gær sagði Salah að liðið hefði virkilega þurft að hafa fyrir sigrinum. Hann sagði að liðið þyrfti að spila hraðari og sókndjarfari fótbolta og að leikurinn gegn Máritaníu hefði verið erfiður.

Forráðamenn Liverpool taka eflaust fagnandi á móti Salah sem fær nú lengri hvíld en áætlað var fyrir mikla leikjatörn sem framundan er hjá félaginu. Fyrirliðinn Virgil Van Dijk er líka mættur aftur í Bítlaborgina en hann fékk rautt spjald í leik Hollendinga og Ungverja í gær og verður í banni gegn Þjóðverjum á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×