Veður

Búast við lítilsháttar éljum á Ströndum og fyrir norð­austan

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndin er úr safni
Myndin er úr safni Vísir/Vilhelm

Víðáttumikil lægð vestur af Írlandi og hæð yfir Grænlandi beina til okkar norðaustlægri átt að mati Veðurstofunnar. Víða má búast við kalda eða strekkingi.

Á Ströndum og norðaustanverðu landinu er búist við því að það verði skýjað að mestu og því megi búast við lítilsháttar éljum þar. Í öðrum landshlutum verði víðast hvar léttskýjað og fallegt veður. Búist er við því að það dragi heldur úr vindi á morgun, mánudag, en hæg breytileg átt og dálítlar skúrir eða él víða um land verði á þriðjudag.

Hiti yfir daginn frá frostmarki í innsveitum norðaustanlands upp í 9 stig syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Gengur í norðaustan og austan 5-13 m/s. Dálítil él norðan- og austanlands, annars þurrt að mestu, en slydda eða rigning með köflum á Suðvesturlandi síðdegis. Hiti 0 til 6 stig yfir daginn.

Á miðvikudag:

Norðan 3-10 og lítilsháttar él, en bjart með köflum sunnan heiða. Kólnar í veðri.

Á fimmtudag:

Norðan 8-13 og él, en þurrt að kalla sunnanlands. Hiti um eða undir frostmarki.

Á föstudag:

Norðvestlæg átt og dálítil él, en yfirleitt þurrt á Suður- og Vesturlandi. Áfram svalt.

Á laugardag:

Breytileg átt og dálítil él á víð og dreif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×