Formúla 1

Hamilton opnar sig um þung­lyndi og ein­elti: „Hafði engan til að tala við“

Aron Guðmundsson skrifar
Lewis Hamilton hefur verið afar sigursæll í Formúlu 1 en þó allt líti út fyrir að vera frábært og æðislegt úi á við er það ekki alltaf raunin.
Lewis Hamilton hefur verið afar sigursæll í Formúlu 1 en þó allt líti út fyrir að vera frábært og æðislegt úi á við er það ekki alltaf raunin. Vísir/Getty

Sjö­faldi For­múlu 1 heims­meistarinn Lewis Hamilton hefur frá unga aldri glímt við þung­lyndi sam­hliða því að reyna skapa sér nafn og skara fram úr í mótor­sportheiminum. Í opin­skáu við­tali við The Times talar Hamilton um bar­áttu sína við þung­lyndi og opnar sig um ein­elti sem hann varð fyrir í skóla.

Hamilton er sigur­sælasti For­múlu 1 öku­þór sögunnar með jafn­marga heims­meistara­titla og sjálf goð­sögnin Michael Schumacher og eftir yfir­standandi tíma­bil mun hann feta í fót­spor Schumacher og ganga til liðs við Ferrari og reyna þar að koma ítalska risanum aftur á sigur­braut.

Akstur­s­í­þrótta­ferill Hamilton hefur staðið yfir frá því að hann var sex ára gamall en í dag er Hamilton 39 ára. Snemma á ferlinum gerði þung­lyndi vart um sig hjá Bretanum og hefur það teygt sig inn á seinni hluta ferilsins.

„Ég held að það stafi út frá pressunni sem fylgir því að vera í þessu sporti en á sama tíma átti ég erfitt upp­dráttar í skóla. Varð fyrir ein­elti. Ég hafði engan til að tala við,“ segir Hamilton í við­tali við Times.

Eftir því sem liðið hefur á hefur Hamilton, sem hóf feril sinn í For­múlu 1 árið 2007, náð betri tökum á og unnið með and­lega líðan sína.

„Maður lærir um hulti sem maður hefur erft frá for­eldrum sínum, tekur eftir á­kveðnu mynstri í því hvernig maður bregst við á­kveðnum hlutum og að­stæðum. Hvernig maður getur tekist á við slíkar að­stæður. Það sem að gæti hafa komið illa við mig hér áður fyrr varðandi for­tíðina hefur kannski ekki haft á­hrif á mig núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×