Fótbolti

Grát­leg niður­staða Birnis og Gísla

Valur Páll Eiríksson skrifar
Birnir Snær byrjaði fyrir Halmstad í svekkjandi jafntefli í kvöld.
Birnir Snær byrjaði fyrir Halmstad í svekkjandi jafntefli í kvöld. @HalmstadsBK

Íslendingaslagur og fallslagur var á dagskrá í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. 

Halmstad hafði tapað sex leikjum í röð í deildinni fyrir leik dagsins við Gautaborg og sat í fallsæti með 21 stig, líkt og Kalmar sem var sæti ofar, í umspilssæti um fall. Gautaborg glímir einnig við falldrauginn en liðið var aðeins stigi fyrir ofan Halmstad fyrir leik kvöldsins.

Kolbeinn Þórðarson byrjaði á miðju Gautaborgar og Birnir Snær Ingason byrjaði á vinstri kanti Halmstad og Gísli Eyjólfsson á þeim hægri.

Markalaust var í hálfleik og var Gísla skipt af velli á 56. mínútu fyrir Fílabeinsstrendinginn Yannick Agnero. Sá kom Halmstad yfir á 78. mínútu leiksins og stefndi allt í langþráðan sigur Halmstad. Ramon Lundqvist kom hins vegar í veg fyrir það með jöfnunarmarki undir lok leiks fyrir heimamenn og 1-1 jafntefli niðurstaðan.

Leikirnir orðnir sjö í röð hjá Halmstad án sigurs en Gautaborg spilað fjóra í röð án þess að fagna sigri.

Halmstad fer þó með stiginu upp fyrir Kalmar í umspilssæti um fall, það fjórtánda í deildinni af 16 en Gautaborg er sæti ofar með stigi meira í jafnri sænskri fallbaráttunni.

Í sænsku kvennadeildinni kom hin 17 ára gamla Sigdís Eva Bárðardóttir, sem fór frá Víkingi til Norrköping í sumar, inn sem varamaður hjá liðinu gegn Djurgarden.

Staðan var 2-1 fyrir Djurgarden þegar Sigdís kom af bekknum á 82. mínútu og með hennar hjálp tókst Norrköping að jafna og 2-2 úrslit leiksins.

Norrköping er í 5. sæti deildarinnar með 31 stig eftir 20 leiki, fimm á undan Djurgarden sem er sæti neðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×