Kjærsgaard greindi frá þessu á Facebook í morgun. Hún segir þar að hún verði orðin áttræð þegar næstu þingkosningar fara fram og að hún geti ekki hugsað sér að sitja annað kjörtímabil á þinginu.
„Þó að stjórnmál séu spennandi, áhugaverð og gefandi þá verður að vera tími fyrir annað í mínu lífi. Þess vegna segi ég brátt takk fyrir rúm fjörutíu ótrúleg ár og fer á eftirlaun,“ segir Kjærsgaard. Hún segist hafa tekið ákvörðunina upp á eigin spýtur og segist sannfærð um að ákvörðunin sé rétt.
Danski þjóðarflokkurinn hefur lengi barist fyrir strangari innflytjendalöggjöf í Danmörku.
Kjærsgaard var fyrst kjörin á þing fyrir Framfaraflokkinn árið 1984 – flokk sem Mogens Glistrup stýrði. Hún hafði starfað sem húshjálp áður en hún tók sæti á þingi. Hún varð fljótt lykilmanneskja í flokknum en gekk til liðs við Danska þjóðarflokkinn árið 1995. Hún stýrði flokknum á árunum 1995 til 2012, en á árunum 2001 til 2011 var flokkurinn stuðningsflokkur hægristjórnar Vestre og Íhaldsmanna.
Hún gegndi svo embætti forseta danska þingsins á árunum 2015 til 2019.
Kjærsgaard kom hingað til lands árið 2018 sem forseti danska þingsins til að sækja hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum og vakti þá athygli að þingflokkur Pírata ákvað að sækja ekki fundinn vegna veru Kjærsgaard og afstöðu hennar til innflytjendamála. Þá yfirgaf einn þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, fundinn á meðan ræðu Kjærsgaard stóð.