„Ég lýsi því hér með yfir að viðlögðum drengskap að hvorki heildartekjur né heildarkostnaður vegna framboðs míns í kjörinu voru hærri en kr. 550.000,“ segir í yfirlýsingum þeirra beggja, en líkt og Vísir greindi frá fyrr í dag býðst þeim frambjóðendum sem ekki nýttu meira fjármagn en sem því nemur að undirrita rafræna yfirlýsingu þess efnis.
„Það staðfestist hér með að heildartekjur eða -kostnaður vegna framboðsins voru ekki umfram þau fjárhæðarmörk sem tilgreind eru í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 162/2006, um starfsemi stjórnmálasamtaka, og er framboðið því undanþegið uppgjörsskyldu,“ segir ennfremur í yfirlýsingunum.
Þannig hafa allir frambjóðendur nema einn ýmist skilað inn slíkri yfirlýsingu eða fjárhagslegu uppgjöri. Viktor Traustason skilaði yfirlýsingu sinni í dag, en Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er sú eina úr hópi tólf frambjóðenda sem ekki hefur skilað inn uppgjöri eða yfirlýsingu.
Ekki skylda að skila yfirlýsingu
Frestur til að skila inn uppgjöri rann út í gær og er nú unnið að því að yfirfara þau uppgjör sem borist hafa. Þau verða síðan birt á vef Ríkisendurskoðunar jafnóðum að yfirferð lokinni.
Tekið er fram sérstaklega í svari Ríkisendurskoðunar við fyrirspurn fréttastofu að hafi heildartekjur vegna framboðs eða heildargjöld við kosningabaráttunar ekki farið fram úr umræddri upphæð sé frambjóðandi undanþegin skyldu til að skila sérstöku fjárhagslegu uppgjöri. Hins vegar þykir æskilegt að frambjóðendur sem það á við um skili yfirlýsingu þess efnis. Það sé þó ekki skylda.