Dagur Dan átti góðan leik í hægri bakverðinum í leiknum en hann lagði upp annað mark liðsins.
Þessi sigur skilar Orlando City upp í sjöunda sætið í Austurdeildinni en liðið hefur nú unnið fimm af síðustu sjö deildarleikjum sínum.
Orlando skoraði tvö mörk á fyrstu fjórtán mínútum leiksins, það fyrra skoraði Ivan Angulo á 10. mínútu en Facundo Torres það síðara á 14. mínútu eftir stoðsendingu frá Degi.
Dagur átti fyrirgjöf fyrir markið þar sem Torres skoraði með viðstöðulausu vinstri fótar skoti úr miðjum vítateignum.
Þriðja markið skoraði síðan Torres á 85. mínútu leiksins en hann var með tvö mörk í þessum leik.
Dagur Dan hefur alls komið að sjö mörkum í 27 deildarleikjum á þessu tímabili. Hann hefur skorað tvö mörk sjálfur og þetta var hans fimmta stoðsending.
Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leiknum. Sóknin með stoðsendingu Dags byrjar eftir 2:05 af myndbandinu.