Raheem Sterling hefur ekki spilað fyrir Chelsea í upphafi leiktíðar og látið óánægju sína í ljós. Hann virðist ekki í plönum Enzo Maresca, þjálfara Lundúnaliðsins.
Maresca gæti aftur á móti verið opinn fyrir því að veita öðrum enskum kantmanni, Jadon Sancho, tækifæri í bláu treyjunni. Sancho hefur ekki átt sjö dagana sæla hjá Manchester United og lenti í miklum útistöðum við Erik ten Hag, þjálfara liðsins, á síðustu leiktíð. Hann fór á lán til Dortmund í Þýskalandi síðari hluta leiktíðar en hefur ekki tekist að brjóta sér leið inn í lið United í sumar.
Breski miðillinn Telegraph segir til skoðunar að félögin tvö framkvæmi leikmannaskipti. Að Raheem Sterling fari til United og Jadon Sancho til Chelsea.
Báðir hafa misst sæti sitt í enska landsliðinu og var hvorugur með í för enska hópsins á EM í sumar.
Sama hver áfangastaður félaganna tveggja verður þykir líklegt að þeir yfirgefi félög sín fyrir lok félagskiptagluggans á föstudagskvöldið.