Tate sætir þegar ákæru fyrir mansal, nauðgun og að stýra glæpasamtökum til þess að misnota konur kynferðislega ásamt bróður sínum Tristan og tveimur rúmenskum konum. Þeir neita sök.
Lögregluyfirvöld segja húsleitirnar í Búkarest og Ilfov-sýslu tengjast rannsókn á mansali á ólögráða einstaklingum, mansal, kynmök með ólögráða einstaklingi, skipulagðri glæpastarfsemi, tilraunir til þess að hafa áhrif á framburð vitna og peningaþvætti, að því er segir í frétt Reuters.
Talsmaður Tate sagði um húsleitina í morgun að allar upplýsingar lægju ekki fyrir en að þær vörðuðu grun um mansal og peningaþvætti. Hann nefndi ekki ásakanirnar um brot gegn ólögráða einstaklingum, að sögn AP-fréttastofunnar.
Tate-bræðurnir eru báðir fyrrverandi bardagaíþróttamenn sem hösluðu sér völl á samfélagsmiðlum, meðal annars með opinskáu kvenhatri. Þeir hafa milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum. Þeir voru fyrst handteknir í Rúmeníu árið 2022. Ekki hefur verið ákveðið hvenær réttarhöld hefjast yfir þeim.
Bresk yfirvöld gáfu út handtökuskipun á hendur bræðrunum fyrir kynferðisbrot þar á árunum 2012 til 2015 í mars. Rúmenskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að framselja mætti bræðurna til Bretlands en ekki fyrr en réttarhöldum yfir þeim væri lokið í Rúmeníu.