Birmingham vann 3-2 sigur á Wycome Wanderers um helgina og hefur liðið nú unnið einn leik og gert eitt jafntefli á tímabilinu. Willum Þór var hetju liðsins um helgina og skoraði hann sigurmark leiksins.
„Þetta var geggjuð tilfinning og það var gaman að skora fyrsta markið sitt fyrir Birmingham. Þetta er risaklúbbur. Þeir taka mikið um það hér að þetta sé sofandi risi. Við seljum upp á alla útileiki og uppselt er á flesta heimaleiki og maður finnur alveg fyrir áhorfendunum,“ segir Willum í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.
Var frekar skrítið
Leikstjórnandinn fyrrverandi Tom Brady, er einn af eigendum Íslendingaliðsins Birmingham. Hinn 47 ára gamli Brady er einn sigursælasti leikmaður í sögu NFL-deildarinnar. Hann á sjö meistaratitla að baki og var hann fimm sinnum valinn verðmætasti leikmaðurinn í úrslitaleiknum um Ofurskálina. Brady deildi mynd af Willum um helgina á samfélagsmiðlum.
„Ég tók ekkert eftir þessu og fékk þetta bara sent frá vini mínum. Þetta var í raun bara frekar skrítið en bara gaman.“
Fyrir fyrsta leik tímabilsins hélt Brady hálftíma ræðu fyrir leikmannahóp Brimingham.
„Hann tók Zoom fund daginn fyrir fyrsta leik og hann hélt svakalega ræðu. Hann kann alveg að tala, hann má eiga það. Hann sagðist ætla koma á einhverja heimaleiki þannig að ég á eflaust eftir að hitta hann.“
Hér að neðan má sjá viðtalið við Willum í heild sinni.