Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari lagði til við dómsmálaráðherra fyrir þremur vikum síðan að Helgi Magnús yrði leystur tímabundið frá störfum vegna kæru á hendur honum fyrir ummæli um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum. Málið er enn á borði dómsmálaráðherra, en Helgi fékk í dag tölvupóst þar sem hann var beðinn um að skila lyklum að húsnæði embættisins og öðru slíku.
Beiðnin var svo afturkölluð nokkrum klukkutímum síðar.
„Það er náttúrulega liðinn nærri mánuður frá því ég fékk póst frá henni um að það væri ekki óskað eftir starfskröftum mínum á meðan á þessu máli stæði hjá ráðherra. En það var ekkert minnst á það þá að ég ætti að skila lyklum eða tölvu, þannig það var alveg nýtt. Ég veit ekki hvað það átti að þýða að senda póst í dag um það,“ segir Helgi.
Ætti að snúa til baka úr fríi á föstudaginn
Helgi telur að ráðherra sé að vanda sig og hún muni svara þegar hún er tilbúin. Hann segist vera í fríi og málið hafi ekki verið neitt sérstaklega aðkallandi gagnvart honum. „En þetta er mjög óþægilegt samt, að hafa þetta yfir sér.“
Hann ætti að öllu jöfnu að snúa til baka úr sumarfríi á föstudaginn. „En það stendur svo í ósk hennar að ég komi ekki til vinnu á meðan ráðherra er að fjalla um þetta, þannig ég svosem veit ekki alveg hvar ég stend í þessu,“ segir hann.
Hann verði að virða ósk Sigríðar, „ætli hún að halda sig við það að ég sitji heima á launum, á meðan ráðherra er að fjalla um þetta, en ég veit svosem ekkert á hvaða grundvelli hún byggir það,“ segir hann.