Hinn 25 ára gamli Stefán Teitur gekk í raðir Preston í sumar eftir gott tímabil með Silkeborg í Danmörku á síðustu leiktíð. Það verður seint sagt að vera hans á Englandi byrji vel en Preston virðist ófært um að finna þjálfara sem helst í starfi.
Eftir fyrsta leik tímabilsins ákvað Ryan Lowe að stíga til hliðar en hann hafði stýrt liðinu síðan í desember 2021. Liðið lá gegn Sheffield United í fyrstu umferð ensku B-deildarinnar og því taldi Lowe það eina rétta í stöðunni að segja upp. Liðið hafði tapað síðustu fimm leikjum sínum á síðustu leiktíð og var því tæknilega séð í frjálsu falli þó nýtt tímabil væri nýhafið.
Mike Marsh tók tímabundið við liðinu en það gekk ekki betur en svo að liðið steinlá gegn Swansea í Suður-Wales í gær, laugardag. Í kjölfar ósigursins ákvað Mike að segja starfi sínu lausu og því er Preston enn á ný í leit að þjálfara þrátt fyrir að tímabilið sé aðeins tveggja leikja gamalt.
📝 Club Update | Mike Marsh#pnefc
— Preston North End FC (@pnefc) August 17, 2024
Skagamaðurinn hefði getað óskað sér betri byrjunar hjá nýju liði en Lowe vildi ólmur fá hann til liðs við sig í sumar. Nú er bara að bíða og vona að nýr þjálfari liðsins sé einnig hrifinn af leikstíl þessa 25 ára gamla Skagamanns.