Hollendingurinn Joshua Zirkzee var hetja Manchester United í kvöld en hann skoraði sigurmarkið í leik liðsins gegn Fulham í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Eins og alltaf var mikil eftirvænting fyrir þessum opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar. Lið United hefur bætt leikmönnum við sig á síðustu dögum og spenningurinn orðinn mikill hjá stuðningsmönnum.
Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Fulham ógnaði í byrjun með skyndisóknum en lið United náði betri tökum á leiknum eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Bruno Fernandes fékk tvö góð færi fyrir hálfleikshléið en Bernd Leno í marki Fulham varði vel í bæði skiptin.
United var áfram sterkari aðilinn í síðari hálfleik en lið Fulham er öflugt og erfitt að brjóta á bak aftur. Bæði lið gerðu breytingar og á 61. mínútu komu Alejandro Garnacho og Joshua Zirkzee báðir inná í liði Untied.
Það átti eftir að skipta sköpum. Á 87. mínútu kom Joshua Zirkzee boltanum út á hægri kantinn þar sem Alejandro Garnacho fékk hann. Argentínumaðurinn sendi boltann inn í teiginn og þar var Zirkzee mættur og náði að pota boltanum í fjærhornið.
Sigurmark á ögurstundu og Zirkzee gat ekki beðið um betri byrjun í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni. 1-0 sigur staðreynd og lærisveinar Erik Ten Hag byrja ensku úrvalsdeildina á jákvæðum nótum.