Leigu- og hollvinasamningarnir sem Þórkatla býður upp á eru skilyrtir því að öruggt sé talið að dvelja í Grindavík. Hollvinasamningur er sagður byggja á samstarfi fyrrum eigenda og fasteignafélagsins um umhirðu, minniháttar viðhald og almennt eftirlit með eignunum. Til stendur að taka ákvörðun um framkvæmd þessara samninga þegar aðstæður leyfa, að því er segir í tilkynningu frá Þórkötlu.
Alls hefur félagið nú gengið frá kaupum á 852 fasteignum í Grindavík. Af þeim hefur félagið tekið við um 650 eignum. Nú er unnið að lokauppgjöri við seljendur og frágangi afsala.
Uppkaupin hafa kostað Þórkötlu, sem er eignaumsýslufélag á vegum ríkisins, rúma 65 milljarða króna til þessa. Kaupsamnings- og afsalsgreiðslur eru tæpir 45 milljarða af heildinni en yfirtekin húsnæðislán rúmir tuttugu milljarðar.