Bolt er með starfsemi í tæplega fimmtíu löndum um allan heim og leigja út um 250 þúsund farartæki. Í gær var rafskútum frá þeim dreift um götur Reykjavíkurborgar og innreið þeirra á íslenskan markað hafin.
„Borgin er góð, hún er flöt og með góða innviði, það er þokkalegur fólksfjöldi. Svo er ekki svo mikil samkeppni svo það var kominn tími til að við kæmum hingað,“ segir Martin Tansøy, rekstrarstjóri Bolt á Íslandi.

Leiguverðið hjá Bolt er töluvert lægra en hjá samkeppnisaðilunum Zolo og Hopp. Til að mynda er startgjaldið hjá þeim 110 og 115 krónur en hjá Bolt núll krónur. Hver mínúta hjá hinum kostar 38 og 39 krónur en hjá Bolt fimmtán krónur.
„Þetta er sennilega ekki sjálfbært verð allt árið en til að byrja með, til að fá fólk til að nota þjónustu okkar, byrja að nota rafhlaupahjólin, hlaða niður appinu, er rétt að gera þetta. Og í framtíðinni, þótt við verðum kannski ekki með þetta verð eftir tvö ár, þá viljum við alltaf vera ódýrasta fyrirtækið,“ segir Martin.
En eru allir ánægðir með þessa komu Bolt á markaðinn?
„Við erum klárlega að fíla þetta. Við höfum alltaf talað fyrir því að góð og heilbrigð samkeppni sé það besta fyrir neytendann, sama hvort það sé á leigubílamarkaði eða öðru, þannig við erum alveg kampakát. Við trúðum á þennan markað þegar við komum hérna fyrir fjórum árum og að fá svona stóran aðila, sem trúir á hann líka, styrkir okkur. Við lítum mjög björtum augum á þetta,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp.

Hún segir viðbrögð Hopp fara alfarið eftir því hvernig hlutirnir þróast.
„Þannig við munum aldrei fara eitthvað að taka niður okkar þjónustustig bara til þess að bregðast við einhverri bólu sem þeir ætla að koma með í einhvern tíma, það er bara ekki þannig. Þetta er ekki fyrsti aðilinn sem reynir fyrir sér á þessum markaði,“ segir Sæunn.