„Ég tek við ábyrgðinni nú og við munum fara til forsetans og biðja hann um að mynda bráðabirgðaríkisstjórn til að stjórna landinu í millitíðinni,“ segir Waker-Uz-Zaman yfirmaður hermála á blaðamannafundi sem boðað var til í dag.
Sheikh Hasina hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2009 en hún flúði land með þyrlu skömmu eftir að mótmælendur réðust inn í höll hennar í höfuðborginni Dökku í dag.
Kveikjan að mótmælunum var ákvörðun stjórnvalda um að þriðjungur opinberra starfa yrði frátekinn fyrir afkomendur uppgjafarhermanna, en þau þróuðust svo út í almenn mótmæli gegn stjórnvöldum.
Í kjölfar frelsisstríðs Bangladess við Pakistan árið 1971 var komið á kvóta, sem kvað á um að þriðjungur allra opinberra starfa yrði frátekinn fyrir afkomendur fyrrverandi hermanna. Þessi kvóti var afnuminn árið 2018, en til stóð að setja hann aftur á laggirnar nú í sumar.Áformin vöktu mikla reiði, en mikið atvinnuleysi er meðal ungs fólks í landinu.
Lagabreytingin var dregin til baka, og nú er kvótinn afmarkaður við fimm prósent opinberra starfa en áfram halda mótmælin og minnst 90 manns létu lífið í gær.