Tilkynnt var um síðustu mánaðarmót að hátæknifyrirtækið Skaginn 3X sem framleiðir tæki fyrir matvælaframleiðslu, aðallega í sjávarútvegi væri gjaldþrota. Ríflega hundrað íbúar á Akranesi störfuðu hjá fyrirtækinu en um tuttugu starfsmenn búa annars staðar.
Heildartilboðið kæmi sér best fyrir alla
Helgi Jóhannesson lögmaður og skiptastjóri þrotabúsins segir þrjú tilboð hafa borist í búið. Tvö tilboð í búnað og tæki og eitt heildartilboð í allar eignir þess og fasteignirnar sem hýstu reksturinn. Fasteignirnar eru hins vegar ekki í eigu þrotabúsins heldur fyrrum eigenda Skagans 3X sem seldu þýska félaginu Baader fyrirtækið fyrir nokkrum árum. Helga hugnast heildartilboðið best. Yrði því tekið gæti starfsemin hafist að nýju.
„Núnaværi best fyrir þrotabúið og alla aðila að þetta heildartilboð næði fram að ganga. En áður en það gerist þarf að nást samkomulag við Íslandsbanka sem á veð í þeim tækjum og tólum sem þrotabúið á ekki. Þá þarf að nást samkomulag við fyrirtækið sem á fasteignirnar sem hýsa reksturinn“ segir Helgi.
Íslendingar standi að tilboðinu
Helgi kveðst ekki vita hverjir standa að þessu tilboði.
„Ég tel mig þó vita að þetta séu íslenskri aðilar ekki erlendir,“ segir hann
Það sé hins vegar erfitt að segja til um hvenær niðurstaða liggi fyrir um hvort tilboðinu verði tekið.
„Ég verð bara að tala í eldgosafyrirsögnum. Ég veit ekki hvenær mun gjósa eða hvort það muni gjósa en ég vona bara að þetta gangi hratt og vel fyrir sig,“ segir Helgi.
Starfsemin þurfi að hefjast sem fyrst á ný
Sigurbjörn Lárusson sem starfaði hjá Skaganum 3x í 26 ár og nú síðast sem verkstjóri segir gríðarlega mikilvægt að starfsemin hefjist að nýju í bæjarfélaginu.
„Þetta var auðvitað stærsti einkarekni vinnustaðurinn á Akranesi og því afar mikilvægt að starfsemin hefjist hér á ný. Þá skiptir máli að það gerist sem fyrst svo við við missum ekki út allar reynsluna en gríðarleg verðmæti felast í mannauðnum í svona fyrirtæki,“ segir hann.
Framleiddu fyrir fiskvinnslur um allt land
Sigurbjörn segir að fyrirtækið hafi framleitt tæki og hugbúnað fyrir fiskvinnslur um allt land. Fyrirtækin þurfi áfram á þjónustu og varahlutum að halda frá Skaganum 3X.
„Við framleiddum tæki fyrir flestallar fiskvinnslur á landinu. Það er búnaður hjá fyrirtækjum eins og Síldarvinnslunni, Ísfélaginu í Vestmannaeyjum og Brimi. Þá er Eskja á Eskifirði með eina stærstu og fullkomnustu verksmiðjuna frá okkur og svo er ný fiskvinnsluverksmiðja á Fáskrúðsfirði sem við framleiddum fyrir. Það er auðvitað erfitt fyrir öll þessi fyrirtæki að geta ekki fengið nauðsynlega þjónustu og varahluti frá Skaganum 3X eftir gjaldþrotið. Það er því gríðarmikið undir fyrir þá líka að starfsemin hefjist að nýju,“ segir hann.