Fótbolti

Fer frá Barcelona til Chelsea

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lucy Bronze er gengin í raðir Chelsea.
Lucy Bronze er gengin í raðir Chelsea. Mynd/Chelsea

Stórstjarnan Lucy Bronze hefur samið við Englandsmeistara Chelsea. Hún kemur til liðsins frá Barcelona á Spáni.

Hin 32 ára gamla Bronze semur við Chelsea til tveggja ára en hún kemur frítt til félagsins í kjölfar þess að samningur hennar í Katalóníu rann út. Hún hefur verið lykilleikmaður hjá Börsungum og enska landsliðinu undanfarin ár og talin á meðal betra leikmanna heims.

Hún vann EM með Englandi árið 2022 og fagnar því að koma aftur til heimalandsins eftir að hafa verið á Spáni í rúm tvö ár.

Bronze hefur komið víða við á ferlinum. Hún er uppalin hjá Sunderland en lék með bæði Liverpool og Everton í Bítlaborginni. Hún fór frá Liverpool til Manchester City, þaðan til Lyon í Frakkalandi, aftur til City og þaðan til Barcelona.

Chelsea er því fimmta enska félagið sem þessi margreyndi leikmaður spilar fyrir. Bronze hefur unnið enska meistaratitilinn í þrígang, tvisvar með Liverpool og einu sinni með Manchester City. Hún vann franska meistaratitilinn og Meistaradeild Evrópu þrisvar á þremur árum með Lyon og þá fagnaði hún spænskum meistaratitli og sigri í Meistaradeildinni bæði ár sín hjá Barcelona.

Hún gengur í raðir Chelsea-liðs sem hefur unnið enska meistaratitilinn fimm ár í röð. Liðið situr hins vegar á tímamótum eftir brotthvarf þjálfarans Emmu Hayes sem tók við bandaríska landsliðinu eftir 13 ár við stjórnvölin.

Franska goðsögnin Sonia Bompastor tók við þjálfun liðsins af Hayes og hefur verið dugleg á markaðnum. Tvær löndur hennar Oriane Jean-François og Sandy Baltimore komu frá Paris Saint-Germain og hin spænska Júlia Bartel frá Bacrcelona.

Bronze fer nú sömu leið og Bartel og vonast til að bæta enn frekar í titlasafnið með Lundúnafélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×