Frakklandshjólreiðarnar eru stærsti viðburður ársins í hjólaheiminum á ári hverju en keppnin fór fyrst fram árið 1903. Hjólaleiðin breytist örlítið á milli ára en á hverju ári er meðal annars hjólað í Alpafjöllunum og Pýreneafjöllunum.
Mótið í ár er í fullum gangi og í dag hjóluðu keppendur frá Pau til Saint-Lary í Frakklandi en ótrúlegt atvik átti sér stað á sérleið dagsins.
Hinn 25 ára gamli Tadej Pogacar frá Slóveníu átti tvo kílómetra eftir á þessari fjórtándu sérleið og var á fullri ferð í brautinni með áhorfendur allt í kring. Skyndilega hljóp einn áhorfandanna inn á brautina og tæmdi úr snakkpoka framan í Pogacar sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.
😡 In a world where you can be anything, don't be this stupid guy.
— Tour de France™ (@LeTour) July 13, 2024
😡 Dans un monde où vous pouvez être qui vous voulez, ne soyez pas cet idiot. pic.twitter.com/oLTkNsXlNK
„Í veröld þar sem þú getur verið hvað sem er, ekki vera þessi heimski náungi,“ var skrifað á opinberan X-aðgang Frakklandshjólreiðanna.
Atvikið vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum og fékk áhorfandinn mikla gagnrýni fyrir uppátækið.
Pogacar fór með sigur af hólmi á sérleiðinni með töluverðum yfirburðum þrátt fyrir atvikið. Pogacar hefur tvisvar farið með sigur af hólmi í Frakklandshjólreiðunum og er á höttunum á eftir sínum þriðja sigri. Hann er með 39 sekúndna forystu í keppninni en henni lýkur í Nice þann 21. júlí.