Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ sæmdi Guðna gullmerkinu. Félagið greinir frá þessu í tilkynningu.
„Guðni hefur í embætti sínu sýnt málum tengdum lýðheilsu og útivist einstakan áhuga og alúð. Forsetinn hefur tekið þátt í mörgum viðburðum Ferðafélags Íslands á embættistíð sinni og lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að auka áhuga þjóðar sinnar á heilbrigðum lífsháttum og útivist,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að félagið hafi átt samleið með Guðna á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnúk, og á Úlfarsfell, útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins.
Ævinlega hafi forsetinn verið tilbúinn að glæða áhuga landsmanna á útivist. Páll Guðmundsson sagði í stuttu ávarpi að Guðni hefði í sinni embættistíð verið forseti fólksins í landinu, auðmjúkur, einlægur og hjartahlýr og hefði unnið hug og hjörtu landsmanna í öllu sínu starfi.