Fótbolti

Segir við Rodri á hverjum degi að hann eigi að koma til Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reynsluboltar spænska liðsins eða þeir Daniel Carvajal, Alvaro Morata og Rodri.
Reynsluboltar spænska liðsins eða þeir Daniel Carvajal, Alvaro Morata og Rodri. Getty/Valeriano Di Domenico

Real Madrid leikmaðurinn Dani Carvajal gerir allt sem hann getur til að sannfæra Rodri um að yfirgefa Manchester City og koma til Real Madrid.

Þeir hafa eytt síðustu vikum saman með spænska landsliðinu. Carvajal svaraði hreint út þegar hann var spurður um hvort hann vildi fá Rodri til Real. Hann var þá í viðtali við El Partidazo de Cope.

„Já án nokkurs vafa. Ég tala um það við hann á hverjum degi. Ég segi við hann: Farðu frá Manchester, það er engin sól þar. Komdu til Madrid, við þurfum á þér að halda. Þú ert líka frá Madrid,“ sagði Carvajal en Marca segir frá.

Carvajal segir þó að þetta sé ekki alveg að ganga upp hjá honum. Rodri er auðvitað með samning við Manchester City til ársins 2027.

„Hann segir. Ég er á samningi og það er ekkert ákvæði hér. Þetta mun taka tíma,“ hefur Carvajal eftir Rodri.

„Þetta yrði fullkomin kaup fyrir okkur. Hann er spænskur og frá Madrid. Hann myndi passa fullkomlega í okkar lið,“ sagði Carvajal.

Rodri kom til Manchester City árið 2019 frá Atlético Madrid en hann er nú 28 ára gamall. Á fimm árum með Manchester City hefur hann unnið ellefu titla með enska félaginu og orðið fjórum sinnum enskur meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×