Enski boltinn

Arsenal með auga­stað á Calafiori

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Riccardo Calafiori spilaði vel á EM.
Riccardo Calafiori spilaði vel á EM. getty/Masashi Hara

Arsenal, silfurlið ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö ár, hefur áhuga á einum af fáum Ítölum sem stóðu sig í stykkinu á EM í Þýskalandi.

Ítalir fengu ekki háa einkunn fyrir frammistöðu sína á EM. Þeir komust upp úr riðlinum á dramatískan hátt en töpuðu svo fyrir Svisslendingum, 2-0, í sextán liða úrslitum.

Þrátt fyrir að ítalska liðið hafi ekki gert miklar rósir á EM vakti frammistaða varnarmannsins Riccardos Calafiori athygli. Hann lék alla leiki Ítalíu í riðlakeppninni og lagði upp markið mikilvæga gegn Króatíu. Hann var hins vegar í leikbanni gegn Sviss.

Calafiori átti frábært tímabil með Bologna í vetur og fylgdi því svo eftir með góðri frammistöðu á EM. Þessi 22 ára leikmaður er því orðinn eftirsóttur og meðal liða sem hafa áhuga á honum er Arsenal. Sky Sports greinir frá.

Calafiori er Rómverji en gekk í raðir Basel í Sviss 2022. Eftir eitt tímabil þar keypti Bologna hann. Calafiori átti stóran þátt í því að Bologna tryggði sér Meistaradeildarsæti með því að lenda í 5. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×