Kristianstad vann þá 3-1 sigur á Linköping en þetta var annar sigur liðsins í röð og sá sjöundi í síðustu átta leikjum.
Það var algjör draumabyrjun sem skipti mestu máli í þessum leik.
Íslenska landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir skoraði tvö mörk á fyrstu átta mínútum leiksins en það fyrra kom á fimmtu mínútu eftir stoðsendingu frá löndu hennar Kötlu Tryggvadóttur.
Þremur mínútum síðar skoraði Hlín eftir sendingu frá Tildu Persson.
Þriðja markið skoraði síðan Tabby Tindell strax á annarri mínútu í seinni hálfleiknum og úrslitin voru nánast ráðin.
Hlín hefur verið að spila mjög vel í sumar og er komin með sex mörk í fyrstu ellefu deildarleikjunum á tímabilinu. Hún hefur líka gefið þrjár stoðsendingar og hefur því komið með beinum hætti að níu mörkum liðsins.
Katla hefur einnig verið að gera góða hluti og hefur alls komið að sex mörkum á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.
Þetta var áttundi sigur Kristianstad í ellefu leikjum í sumar. Liðið er tveimur stigum frá þriðja sætinu en á leik inni á Hammarby.