Verður þetta í fyrsta sinn sem félagið tekur þátt á þessu stigi Evrópuhandboltans en Fredericia hefur verið að gera frábæra hluti undir stjórn Guðmundar síðastliðin tvö tímabil sem hafa skilað heim brons- og nú silfurverðlaunum dönsku úrvalsdeildarinnar.
Í stuttu samtali við Vísi í morgun tjáði Guðmundur blaðamanni að hann væri hrærður yfir fréttum dagsins en fyrir nokkrum dögum var Guðmundur í ítarlegu viðtali þar sem að hann fór yfir tímann hingað til hjá Fredericia og tjáði sig þá einnig um möguleikann á því að Fredericia myndi spila í Meistaradeildinni á næsta tímabili.
Guðmundur leyfði sér allan tímann að vera bjartsýnn fyrir hönd Fredericia gagnvart því að Meistaradeildarsætið myndi skila sér. Eitthvað sem yrði stórkostlegt fyrir félagið. Eitthvað sem er orðið að raunum frá og með morgninum.
„Mjög stórt skref. Ég verð að segja það,“ segir Guðmundur um Meistaradeildarsæti. „Það er mjög spennandi að taka þátt í þeirri keppni. Það er mikið álag sem fylgir því að taka þátt í svoleiðis keppni. Margir leikir sem bætast við. En það verður algjört ævintýri.“
Algjört handboltaæði hefur gripið bæjarfélagið Fredericia á nýjan leik en handboltalið bæjarins þótti á sínum tíma eitt besta lið Danmerkur og stefnir nú hraðbyri í að verða það aftur.