„Við erum að gera okkur klára í hraunkælingu,“ segir Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Grindavíkur.
Hann segir hraunið ekki hafa runnið langt yfir varnargarðinn og að ef varnargarðurinn opnast þá vilja þeir vera klárir til að taka á móti.
„Það eru menn á vinnuvélum upp á varnargarðinum. Þeir eru að reyna að stoppa þennan straum,“ segir Einar Sveinn.
„Það er töluvert í Svartsengið en við viljum ekki fá neitt rennsli yfir garðinn.“
Ekki notuð síðan í Vestmannaeyjagosinu
Hraunkæling hefur ekki verið notuð síðan í Vestmannaeyjagosinu árið 1973. Einar Sveinn segir þetta ekki tæknilega flókið en það þurfi að nota mikið vatn ef aðgerðin á að hafa einhver áhrif.
„Það þarf að nota stórar lagnir og mikið af vatni. Það er umfang að setja upp svona kerfi. Við fáum vatn frá Orkuverinu í Svartsengi. Við erum með hjálp frá Isavia og Brunavörnum Suðurnesja og Brunavörnum Árnesinga. Ásamt dyggu fólki frá almannavarnadeildinni,“ segir Einar Sveinn.
Hann veit ekki hversu lengi verður unnið á vettvangi en þau verði þarna eins og þörf er á.
„Við tökum kvöldinu eins og höndum ber og sjáum hvað það ber í skauti sér.“
Stöðugt hraunflæði
Fram kom í tilkynningu frá Veðurstofunni í dag að eldgosið væri nokkuð stöðugt og að það gjósi úr einum gíg. Þá sagði að hraunið flæddi að mestu til norðurs meðfram Sýlingafelli. Enn er landris í Svartsengi og er það á svipuðum hraða en þó minni hraða áður en eldgosið hófst.
Hjördís Guðmundsdóttir hjá almannavörnum segir hraunflæðið ekki hratt en að þau ætli að láta reyna á hraunkælingu til að koma í veg fyrir frekara flæði að orkuverinu.