Hinn 25 ára gamli Jón Dagur skoraði sigurmarkið þegar Ísland lagði England 1-0 á Wembley í aðdraganda Evrópumóts karla í knattspyrnu. Var það hans fimmta mark fyrir íslenska A-landsliðið.
Markið virðist hafa kveikt áhuga liða í ensku úrvalsdeildinni á Jón Degi sem spilar í dag með OH Leuven í Belgíu. Samkvæmt frétt Chronicle Live eru Newcastle United, West Ham United og nýliðar Leicester City með augastað á vængmanninum sem spilaði á sínum tíma með unglingaliðum Fulham.
Þaðan fór hann til Vendsyssel í Danmörku á láni áður en hann samdi við AGF árið 2019. Hann fór til Leuven þremur árum síðar og gæti nú aftur verið á faraldsfæti.