Joe Biden Bandaríkjaforseti, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Karl Bretakonungur taka þátt í athöfnum auk fleiri þjóðarleiðtoga. Þann sjötta júní 1944 gengu þúsundir hermanna frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi, og Kanada á land á fimm ströndum í Normandí í norðurhluta Frakklands.
Um stærstu innrás frá sjó í sögu hernaðar á jörðinni var að ræða og er árásin sögð marka kaflaskipti í Seinni-heimstyrjöldinni. Upphaflega stóð til að hermennirnir, sem alls voru 150 þúsund talsins, myndu leggja af stað frá Bretlandi deginum áður, en vonskuveður kom í veg fyrir það.
Bandamönnum tókst að koma Þjóðverjum á óvart með innrásinni og ekki síst hvar farið var á land. Þjóðverjar höfðu talið að Bandamenn myndu gera árásina á öðrum stað. Ráðist var á land á fimm ströndum eins og áður sagði og áður en klukkan sló miðnætti höfðu Bandamenn komist náð langt inn í land á fjórum af ströndunum fimm. Það tókst þó ekki án mannfórna, því á fyrsta degi árásarinnar létust 4.400 Bandamenn og rúmlega 9000 særðust.
Tveimur mánuðum síðar hafði París verið frelsuð og í maímánuði árið eftir gáfust Þjóðverjar upp.