Tilkynning Farage í dag þykir áfall fyrir Íhaldsflokk Rishi Sunak forsætisráðherra. Skoðanakannanir benda til stórsigurs Verkamannaflokksins en Umbótaflokkur Farage er líklegur til þess að dreifa atkvæðum íhaldssamra kjósenda. Umbótaflokkurinn hefur mælst með um tíu prósent fylgi í könnunum á landsvísu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Farage hefur sjö sinnum boðið sig fram til þings áður en aldrei haft erindi sem erfiði. Flokkur hans ákvað að bjóða ekki fram fólk í kjördæmum þingmanna Íhaldsflokksins til þess að dreifa ekki atkvæðum Brexit-sinna í kosningunum árið 2019.
Sunak sagði að atkvæði greitt Umbótaflokknum hjálpaði Verkamannaflokknum til sigurs þegar hann var spurður hvort hann óttaðist framboð Farage í dag.