Í kjölfar birtingar á uppgjörum fyrirtækja fyrir 1. ársfjórðung 2024 eru nú CAPE- og VH-gildin fyrir apríl og maí aðgengileg fyrir íslensku Úrvalsvísitöluna OMXI15. Síðustu tólf mánuði hefur hagsveifluleiðrétt VH-hlutfall (CAPE) verið á bilinu 25 til 30 og endaði í 25 fyrir maí.
Hlutfallið þýðir að arðsemiskrafa á íslensk hlutabréf er um fjögur prósent. Samkvæmt hagfræðingnum Robert J. Shiller við Yale háskólann í Bandaríkjunum er hlutfallið 33 fyrir S&P 500 vísitöluna, sem gefur til kynna þriggja prósenta arðsemiskröfu fyrir bandarísk hlutabréf. Í ljósi áhættuálags hlutabréfa er þarft að taka tillit til samanburðar við ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa; hún var um 7,2 prósent á íslensk ríkisskuldabréf í maí en nokkru lægri á bandarísk ríkisskuldabréf, eða liðlega 4,5 prósent (heimild: Bloomberg).
VH-hlutfallið fyrir OMXI15 hefur haldist yfir sögulegu meðaltali síðan í júlí í fyrra þrátt fyrir vaxandi raunhagnað félaga vísitölunnar og endaði í 26 í maí. Fimm ára ávöxtunarkrafa á óverðtryggð ríkisskuldabréf hækkaði í 7,4 prósent í apríl en lækkaði svo aftur í maí og endaði í 7,2 prósent.
Vegna þrálátrar verðbólgu, sem hækkaði lítillega í maímánuði og mælist núna 6,2 prósent, og aukinnar framleiðsluspennu samkvæmt endurskoðuðum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands hélt peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands stýrivöxtum óbreyttum í 9,25 prósent í byrjun síðasta mánaðar.
Höfundur er hagfræðingur.
Nánar um CAPE:
Frá árinu 2016 hefur hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson með aðstoð og gögnum frá Kóða og Nasdaq Iceland tekið að sér að reikna og birta mánaðarlega opinberlega tímaraðir fyrir svokallað CAPE (e. Cyclically Adjusted Price to Earnings) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 sem hliðstæðu við útreikninga Dr. Robert J. Shiller fyrir S&P 500 vísitöluna.
Hlutfallið sýnir virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði þeirra félaga sem mynda vísitöluna. Hefðbundið VH-hlutfall miðast við hagnað síðastliðinna tólf mánaða og í þeim tilfellum sem miklar breytingar verða á hagnaði getur reynst vandasamt að átta sig á réttmæti verðlagningar. Í tilfelli CAPE er notast við verðlagsleiðréttan sögulegan hagnað sem getur gefið vísbendingu um réttmæti verðlagningar á móti hagnaði í eðlilegu árferði.