
Síðasta könnun Maskínu fyrir fréttastofuna var birt sama dag og síðari kappræður forsetaframbjóðenda fóru fram fimmtudaginn 30. maí. Þar hafði Halla Tómasdóttir siglt upp að hlið Katrínar Jakobsdóttur, báðar með 24,1 prósenta fylgi.
Könnunin sýndi að Halla Tómasdóttir var enn á flugi frá því fylgi hennar nánast þrefaldaðist milli kannana Maskínu hinn 8. maí og 16. maí þegar sex efstu frambjóðendur samkvæmt könnunum mættu í fyrri kappræður Stöðvar 2.

Maskína hélt hins vegar áfram að fylgjast með þeim miklu hreyfingum sem kannanir fyrirtækisins og annarra könnunarfyrirtækja höfðu sýnt að voru á fylgi efstu frambjóðenda allt frá upphafi annarar viku aprílmánaðar. Í fyrstu tveimur könnunum Maskínu sem birtar voru 8. apríl og 18. apríl var Katrín með örugga forystu með 32,9 prósenta fylgi í fyrstu könnuninni og 31,4 prósent í annarri. Flökti fylgi Katrínar frá 23 prósentum til 27 prósenta en fylgi Höllu Hrundar Logadóttur, Baldurs Þórhallassonar, Jóns Gnarrs og Höllu Tómasdóttur fór á mikla hreyfingu.

Leið Höllu Tómasdóttur upp á við hófst í könnun Gallups sem birt var 10. maí, Prósents 13. maí og Maskínu 16. maí. Það jókst síðan stöðugt milli kannana eins og rakið hefur verið. Í könnun sem Maskína gerði síðan frá klukkan tíu að morgni til átta að kveldi föstudagsins 31. maí, daginn fyrir kjördag kom fram að Halla Tómasdóttir var enn í mikilli sókn og hafði þá stungið alla aðra frambjóðendur af.
Þóra Ásgeirsdóttir framvæmdastjóri Maskínu segir að fyrirtækið hafi hins vegar ákveðið að birta ekki könnunina vegna þess að ekki hafi þótt viðeigandi að birta könnun á kjördag. Í þessari síðustu könnun mældist Halla með 32 prósenta fylgi og Katrín með 23 prósent. Katrín var þannig föst með rétt rúmlega tuttugu prósent frá síðustu könnunum og fylgi annarra efstu frambjóðenda komið á mikla ferð.