Foreldrar Murrays greindu frá því að hann hefði svipt sig lífi á laugardaginn. Hann dró sig úr keppni á Charles Schwab Challenge á PGA-mótaröðinni daginn áður. Hann hafði þá leikið sextán holur á öðrum hring mótsins.
Fráfall Murrays setti auðvitað sitt mark á síðasta keppnisdaginn á Charles Schwab Challenge. Kylfingar og kylfusveinar báru rauða og svarta borða á derhúfum sínum eða bolum til minningar um Murray. Hann klæddist oft rauðu og svörtu sem eru litir íshokkíliðsins Carolina Hurricanes. Murray var frá Norður-Karólínu.
Riley varð hlutskarpastur á Charles Schwab Challenge og vann þar með sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni á ferlinum. Eftir sigurinn nýtti hann tækifærið til að minnast Murrays.
„Þetta er sorgardagur fyrir golfið. Ég sendi fjölskyldu hans mínar samúðarkveðjur. Það var klárlega eitthvað auka að spila fyrir í dag [í gær],“ sagði Riley sem lék samtals á fjórtán höggum undir pari. Hann var fimm höggum á undan Keegan Bradley og Scottie Scheffler.
Murray vann tvö PGA-mót á ferlinum. Það síðara var Sony Open á Hawaii í janúar síðastliðnum. Áður hafði hann unnið Barbasol Championship fyrir sjö árum.
Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.